20 tillögur til
móts við nýja tíma

og 80 áherslur að auki

Ábyrgur rekstur í þágu íbúa

Garðbæingar hafa lengi búið við lægsta útsvarið meðal stærstu sveitarfélaga landsins. Þá stöðu viljum við verja ásamt því að leitaleiða til lækkunar á öðrum álögum á einstaka hópa.

Ábyrgur rekstur og sterk fjárhagsstaða er grunnurinn að góðri þjónustu og tryggir að hægt sé að framkvæma meira í þágu íbúa en víðast annars staðar er raunin.

Þetta viljum við gera:

  • Halda áfram að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda ásamt því að þróa afslætti á gjöldum til einstakra hópa, s.s. eldri borgara og barnafjölskyldna.
  • Viðhalda festu við stjórn fjármála bæjarins og vinna ávallt að skilvirkni í rekstri. Leggja áherslu á ráðdeild og kostnaðarvitundvið útdeilingu fjármuna.
  • Tryggja að rekstur bæjarins skili áfram drjúgu fjármagni tiluppbyggingar í innviðum bæjarins og verja þannig lága skuldastöðu bæjarsjóðs. Hafa skýra fjárfestingarstefnu, vanda tilverka við gerð áætlana og fylgja þeim fast eftir.

Aukum framboð heilbrigðistengdrar þjónustu í samvinnu við ríki og sjálfstæða rekstraraðila

Við viljum að Garðbæingar njóti fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu sem mætir nútímaþörfum vaxandi bæjarfélags. Við leggjum áherslu á valfrelsi og samstarf við sjálfstæða sérhæfða rekstraraðila. 

Þetta viljum við gera:

  • Stuðla að því í skipulagi bæjarins að til staðar sé möguleiki á lóð/lóðum fyrir heilsugæslu, hjúkrunarheimili og sérhæfða dagdvalarþjónustu.
  • Að slíkur rekstur verði á höndum sérhæfðra aðila á hverju sviði fyrir sig og boðinn út í samvinnu við ríkið.
  • Vinna að því að einfalda aðgengi að þjónustu og auka samvinnu heilsugæslu og stuðningsþjónustu á vegum bæjarins, meðal annars með innleiðingu snjallra lausna.

Stjórnsýsla í stöðugri framþróun

Við viljum að lýðræðisleg vinnubrögð, stafræn þróun og samfélagsábyrgð einkenni alla stjórnhætti og stefnumótun Garðabæjar. Upplýsingamiðlun þarf að vera gagnvirk og gera þarf íbúum auðvelt að fá upplýsingar og koma fyrirspurnum til réttra aðila innan stjórnsýslu bæjarins.

Þetta viljum við gera:

  • Eiga reglulegt samráð við íbúa og hagsmunahópa, svo sem með markvissri nýtingu rýnihópa.
  • Nýta stafrænar lausnir til að einfalda og bæta þjónustu og efla rafræna samráðsgátt.
  • Þróa áfram lýðræðisverkefnið „Betri Garðabær“, til dæmis með aukinni áherslu á þátttöku yngri aldurshópa.
  • Árangri við innleiðingu heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun verður fylgt eftir með áherslu á mælanleg markmið.

Umhyggja fyrir umhverfi og snyrtilegur bær

Garðabær á að vera í fremstu röð í umhverfismálum og snyrtimennsku. Mikil lífsgæði felast í umhverfi okkar og ósnortinni náttúru. Vinnum markvisst eftir loftslagsstefnu og „Garðabær gegn sóun“ í öllum rekstri bæjarins.

Þetta viljum við gera:

  • Leggja áherslu á sjálfbærni, græna hvata og hringrásarhagkerfið við allar framkvæmdir og í skilmálum.
  • Auka flokkun sorps og minnka þannig ónauðsynlegan úrgang.
  • Fjölga stígum og áningarstöðum með borðum, bekkjum, lýsingu, ruslafötum, leik- og æfingatækjum.
  • Sinna vel viðhaldi gatna, stíga og opinna svæða.
  • Styrkja fráveitu samfara uppbyggingu íbúðarbyggðar.

Fjölbreyttir valkostir í húsnæði fyrir unga sem aldna

Fjölbreyttir valkostir í húsnæði fyrir unga sem aldna. Við leggjum áherslu á fjölbreytta húsa- og íbúðagerð sem uppfyllir þarfir fólks á ólíkum æviskeiðum. Skipulag í Garðabæ á, hér eftir sem hingað til, að ýta undir fjölskylduvænt umhverfi, góðan bæjarbrag og tengingu við náttúruna.

Þetta viljum við gera:

  • Úthluta lóðum til einstaklinga, félaga og verktaka þar sem fjölbreyttir húsnæðisvalkostir séu í boði, umhverfisvottuð hverfi, bæði þétt og dreifðari byggð í snertingu við náttúruna.
  • Ljúka uppbyggingu í Urriðaholti, deiliskipulagi í Hnoðraholti, á Vífilsstöðum og Álftanesi. Gætt verður að því að hverfi bæjarins viðhaldi sérkennum sínum.
  • Halda áfram uppbyggingu íbúða fyrir barnafjölskyldur eins og gert hefur verið í Lyngási, Urriðaholti og á Álftanesi.
  • Leggja áherslu á uppbyggingu íbúða á einni hæð, til dæmis í Hnoðraholti og Hleinum, fyrir fólk sem vill minnka við sig húsnæði

Öruggar og góðar samgöngur milli bæjarhluta

Við viljum að Garðabær sé vel tengdur með almenn-ingssamgöngum og stígum, innan hverfa og frá strönd til upplands. Það er viðvarandi verkefni að efla og auðvelda samgöngur innan bæjarins og utan til að tryggja að íbúar komist leiðar sinnar á greiðan og öruggan hátt.

Þetta viljum við gera:

  • Tengja Urriðaholt betur við önnur hverfi Garðabæjar með öruggri göngubrú yfir Reykjanesbraut og huga að breikkun núverandi akstursbrúar og öðrum tengingum við stofnæðar.
  • Leggja göngu- og hjólastíg milli Urriðaholts og Miðgarðs.
  • Deiliskipuleggja Hafnarfjarðarveg í stokk með áherslu á blöndun íbúða og grænna svæða og tengingu við miðbæ Garðabæjar.
  • Deiliskipuleggja Elliðavatnsveg (Flóttamannaveg) og tryggja samhliða góðar tengingar Urriðaholts við Heiðmörk, golfvöllinn Odd og Vífilsstaðavatn fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
  • Auka aðgengi að náttúru með viðeigandi stígum og möguleikum vistvæns ferðamáta.

Kraftmikil uppbygging leik- og grunnskólamannvirkja

Leik- og grunnskólar Garðabæjar eiga að bjóða upp á bestu mögulegu aðstöðu fyrir fjölbreyttar námsleiðir, útikennslu og nám í gegnum leik. Auk þess viljum við tryggja góða vinnuaðstöðu fyrir nemendur og kennara, félagsaðstöðu, rými fyrir tónlistarnám, bókasafn/upplýsingatæknirými, matsal og ýmis rými fyrir sértæka þjónustu. Skólalóðir og leiðir að skóla eiga að vera öruggar og bjóða upp á samveru

Þetta viljum við gera:

  • Flýta framkvæmdum við 2. og 3. áfanga Urriðaholtsskóla og ljúka framkvæmdum við Sjálandsskóla. Byggja við Garðaskóla, meta þörf fyrir stækkun Álftanesskóla og undirbúa grunnskóla í Vetrarmýri/Hnoðraholti í takt við þróun byggðar.
  • Ljúka byggingu tveggja 6 deilda leikskóla í Urriðaholti, leikskóla í Lyngási, meta þörf fyrir leikskólapláss í Vetrarmýri/Hnoðraholti, á Álftanesi og víðar í takt við þróun byggðar.
  • Gera átak í viðhaldi skólalóða leik- og grunnskóla. Tryggja að örugg leiktæki séu á skólalóðum, gönguleiðir að skólum séu öruggar og vel upplýstar.

Fullgerum aðlaðandi miðbæ á Garðatorgi

Við ætlum að skipuleggja og ljúka í áföngum framkvæmdumvið heildstæðan miðbæjarkjarna á Garðatorgi í samvinnu við bæjarbúa og hagsmunaaðila. Aðlaðandi miðbær eflir bæjarbrag, laðar að fólk, fyrirtæki og þjónustu. Áhersla verður lögð á nútímalega nálgun þar sem íbúum stendur til boða fjölbreytt verslun og þjónusta, vettvangur til samveru, afþreying og listir.

Þetta viljum við gera:

  • Móta metnaðarfulla heildarsýn fyrir torgið og miðbæ Garðabæjar til framtíðar í samstarfi við bæjarbúa og hagsmuna aðila.
  • Að endurgera yfirbyggða hluta torgsins (göngugatan og torgið við bókasafnið). Huga þarf meðal annars að aðkomu, bílastæðum, aðgengi, merkingum, hljóðvist og lýsingu.
  • Tryggja með hugmyndasamkeppni nútímalega hönnun sem styður við jákvæða upplifun og fjölbreytt mannlíf á samtengdu svæði um torgið.

Fjölgum íbúðum fyrir fatlað fólk og færum þjónustu nær notendum

Þjónusta við fatlað fólk í Garðabæ hefur vaxið umtalsvert undanfarin ár. Við viljum vinna áfram að því að efla þessa þjónustu, bæta upplifun notenda og mæta áfram þörfum um sjálfstæða búsetu.

Þetta viljum við gera:

  • Búsetukjarnar eða annars konar íbúðaúrræði fyrir fatlað fólk rísi í Brekkuási og Hnoðraholti. Staðsetning og skipulag frekari íbúðaúrræða fyrir fatlað fólk verði ákveðið með áherslu á vandaða þarfagreiningu.
  • Að myndaðir verði rýnihópar notenda og aðstand-enda um helstu þætti þjónustunnar og niðurstöður nýttar til að bæta þjónustu við fatlað fólk.
  • Leggja áherslu á aðgengi fyrir alla, bæði aðgengi að mannvirkjum en einnig að upplýsingum og leiðbeiningum um þjónustu.

Kraftar frjálsra félaga nýttir í þágu frístundastarfs og heilsueflingar

Við erum stolt af hinni breiðu flóru frjálsra félaga í bænum sem starfa í þágu bæjarbúa og viljum auka samstarfið við þau. Heilsueflandi starfsemi og lista- og frístundastarf er sterkara í samvinnu við félögin og við vitum hve mikilvægur stuðningur bæjarins við starfsemi þeirra er.

Þetta viljum við gera:

  • Að Garðabær auki stuðning við frjálsu félögin þegar kemur að frístundastarfi barna á sumrin þannig að þjónustuúrval breikki og mæti sem allra best þörfum barnafjölskyldna.
  • Að félögin taki aukinn þátt í tómstundastarfi barna utan skólatíma. Skoðað verði að flétta barnastarf þeirra betur inn í hefðbundið skólastarf í samráði við skólastjórnendur.
  • Halda áfram að þróa samstarf við félög eldri borgara til uppbyggingar á metnaðarfullum verkefnum með áherslu á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun eldra fólks

Fyrirmyndaraðstaða fyrir félagsstarf eldra fólks og snjallar lausnir

Eitt stærsta verkefnið í Garðabæ á næstu árum og áratugum verður að byggja upp gott og gefandi samfélag fyrir eldra fólk með áherslu á heilsutengdar forvarnir og lýðheilsu. Við ætlum að mæta þörfum eldra fólks og hlúa að og efla alla þjónustuþætti.

Þetta viljum við gera:

  • Endurbæta aðstöðuna fyrir félagsstarfið í Jónshúsi, byggja upp félags- og tómstundaaðstöðu á Álftanesi, skoða tækifæri í tengslum við skipulagningu óinnréttaðs rýmis í Miðgarði og nýtingu þess í tengslum við göngusvæði sem nú þegar eru til staðar.
  • Efla Smiðjuna í Kirkjuhvoli og skoða þörf fyrir að byggja frekar upp miðlæga aðstöðu eldra fólks þar sem áhersla er á handverk og fjölbreytt námskeið.
  • Innleiða fleiri snjallar lausnir á sviði velferðar sem styðja við notendur og starfsfólk.

Hlúum að fjölbreyttu menningarlífi og varðveitum minjar og sögu

Við viljum að Garðabær sé annálaður menningarbær. Menningarstarf skapar mannlíf, þroskar okkur og gerir tilveruna litríkari. Við ætlum að styðja við fjölþætt menningar- og listastarf Garðbæinga og standa vörð um sögu okkar og menningarminjar. Allt auðgar það mannlífið í Garðabæ.

Þetta viljum við gera:

  • Efla og styðja við fjölbreytta menningarviðburði og listsköpun, svo sem Barnamenningarhátíð, Jónsmessugleði, skapandi smiðjur, hönnun og götulist, glæsilega bæjarhátíð og nýta Garðatorg sem menningarmiðju bæjarins með öflugu ungmennahúsi.
  • Ljúka við gerð margmiðlunarsýningar fyrir minjagarðinn á Hofsstöðum þar sem landnámssögu Garðabæjar eru gerð skil á nýstárlegan hátt.
  • Fjölga útilistaverkum, til dæmis á hringtorgum bæjarins og sögufrægum stöðum.
  • Varðveita minjar okkar og sögu, meðal annars með því að hefja skönnun á ljósmyndum og skjölum og stíga þannig fyrsta skrefið í átt að minja-, skjala- og ljósmyndasafni Garðabæjar.

Aukið framboð tónlistarnáms og nýsköpun í tónlistarstarfi

Tónlistarnám er hluti af námsframboði ungmenna og fullorðinna í Garðabæ. Mikilvægt er að námið sé aðgengilegt sem flestum og að horft sé til ólíkra námsleiða. Mikill tónlistaráhugi er meðal ungs fólks í Garðabæ og við eigum margt öflugt tónlistarfólk sem er auðlind fyrir menningarlíf bæjarins.

Þetta viljum við gera:

  • Skoða fýsileika þess að stækka núverandi húsnæði tónlistarskólans við Kirkjulund.
  • Efla tækifæri til tónlistarnáms með auknum fjölbreytileika. Tryggja að tónlistarnám geti farið fram í öllum grunnskólum bæjarins.
  • Nýta nýjan þróunarsjóð skapandi greina til að þróa ný tónlistarverkefni í bænum og auka þannig nýsköpun í tónlistarstarfi Garðbæinga.

Metnaðarfull uppbygging aðstöðu til íþrótta og útivistar

Garðabær býr að framúrskarandi aðstöðu til íþróttaiðkunar og útivistar. Við ætlum að halda áfram að byggja upp frábæra aðstöðu fjölbreyttrar flóru íþrótta og útivistar. Við viljum huga sérstaklega að viðhaldi og endurbótum mannvirkja.

Þetta viljum við gera:

  • Ljúka uppbyggingu á íþróttahúsi og sundlaug við Urriðaholtsskóla og íþróttaaðstöðu utandyra í hverfinu.
  • Hrinda í framkvæmd viðhaldsáætlun fyrir íþróttamannvirki bæjarins.
  • Vinna áfram að uppbyggingu og viðhaldi opinna svæða og stíga ásamt því að aðskilja göngu- og hjólaleiðir á stofnstígum.

Forvarnir á síbreytilegum tímum

Í Garðabæ viljum við vera stöðugt á verði og horfa til nýrra þátta í forvarnastarfi. Samfélagsþróun, breytt viðhorf og ný þekking kalla sífellt á nýjar nálganir og samhæfingu ólíkra aðila á sviði forvarna.

Þetta viljum við gera:

  • Vinna á grunni farsældarlaganna til að tryggja að börn og foreldrar sem þurfa á stuðningi að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu án hindrana.
  • Leggja megináherslu á heilsutengdar forvarnir og lýðheilsu, fjölbreytta fræðslu og eflingu forvarnavikunnar.
  • Byggja áhersluverkefni á niðurstöðum rannsókna og mælinga.

Eftirsótt atvinnustarfsemi

Við viljum að Garðabær sé eftirsóknarverður staður til að byggja upp fyrirtæki og reka fjölbreytta atvinnustarfsemi og að bæjarbúar njóti kosta þess að geta sótt atvinnu í nærumhverfinu.

Þetta viljum við gera:

  • Bjóða upp á fjölbreytt atvinnusvæði, meðal annars í Vetrarmýri og Rjúpnadal, sem taki mið af mismunandi tegundum iðnaðar- og þjónustustarfsemi.
  • Stuðla að heildstæðu skipulagi svæða svo fyrirtæki njóti ávinnings af nálægri starfsemi, eins og þegar eru góð dæmi um í Urriðaholti og í miðbænum.
  • Tryggja að álögur á rekstur séu samkeppnishæfar við nágrannasveitarfélög.
  • Auka vitund um Garðabæ sem eftirsóknarverðan áfangastað verslunar og þjónustu.

Farsæld og framsækni í grunnskólum Garðabæjar

Garðabær er skólasamfélag í fremstu röð sem vill búa vel að nemendum, aðstandendum þeirra og starfsfólki. Við viljum efla faglegt starf í skólunum í anda nýrrar Menntastefnu Garðabæjar. Farsæld og framsækni eru leiðarljós starfsins.

Þetta viljum við gera:

  • Auka markvisst við faglegan og einstaklingsmiðaðan stuðning inn í daglegt starf skólanna, svo sem með aukinni atferlisþjálfun, sálfræði- og talmeinaþjónustu og náms- og starfsráðgjöf.
  • Efla þróunarsjóð skólanna sem hvetur til og styður við skólaþróun, fjölþætta kennsluhætti og nýbreytni.
  • Efla snjalllausnir, stafræna hæfni og tækni í kennslu og skólastarfi. Tryggja að tæknibúnaður og þjónusta við skólana sé í fremstu röð.
  • Leggja áfram áherslu á val nemenda um skóla, sérstöðu, sjálfstæði og ólík rekstrarform skóla sem skapar fjölbreytt og metnaðarfullt námsumhverfi í bænum.

Efling og framþróun leikskólastarfs

Leikskólar í Garðabæ eiga að vera eftirsóttir vinnustaðir sem einkennast af fagmennsku þar sem starfsfólki og börnum líður vel. Foreldrar upplifi fagmennsku, öryggi og góða þjónustu. Við ætlum að leggja sérstaka áherslu á að efla og þróa enn frekar leikskólastarfið í Garðabæ.

Þetta viljum við gera:

  • Tryggja inntöku eins árs barna á leikskóla og auka gegnsæi við inntökuferlið. Leitast sé við að systkini hafi forgang á sama leikskóla.
  • Að forráðamenn fái greiðslur sem nema mótframlagi til dagmóður fái barn ekki leikskólapláss við eins árs afmælið, þar til barnið fær boð um leikskólavist.
  • Efla aðbúnað og starfsánægju starfsfólks í samvinnu við stjórnendur leikskóla.
  • Setja á fót rýnihóp um leiðir til að efla leikskólastigið í Garðabæ í samvinnu við hagaðila.

Aukið öryggi í þágu íbúa

Við viljum að Garðbæingar séu öruggir heima við og í bænum okkar. Við munum áfram leitast við að skapa öruggara umhverfi fyrir bæjarbúa.

Þetta viljum við gera:

  • Styðja frekar við nágrannavörslu, efla upplýsingagjöf og leiðbeiningar í samvinnu við íbúa, fyrirtæki og lögregluyfirvöld.
  • Halda áfram að setja upp og nýta öryggismyndavélar í samstarfi við lögreglu.
  • Efla umferðaröryggi og öryggi gangandi og hjólandi, meðal annars með lýsingu stíga.

Miðgarður verði fjölbreytt miðstöð á sviði íþrótta og heilsueflingar

Í Vetrarmýri er að myndast sterk miðstöð fyrir samveru fjölskyldunnar, margs konar heilsueflingu og íþróttastarfsemi. Við viljum halda áfram að þróa svæðið á grunni skipulagsins sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili.

Þetta viljum við gera:

  • Hefja undirbúning að frekari uppbyggingu íþróttahúsa og knattspyrnuaðstöðu í Vetrarmýri.
  • Skipuleggja óráðstafaða rýmið sem til staðar er í Miðgarði í góðri samvinnu við frjálsu félögin í bænum. Í kjölfarið verði rými innréttuð, tekin í notkun og starfrækt af frjálsum félögum og sjálfstætt starfandi aðilum sem bjóða upp á fjölbreytta heilsutengda starfsemi.
  • Horfa sérstaklega til þess að mæta ólíkum hópum, jafnt keppnismiðuðum íþróttum sem og annarri ástundun/hreyfingu.
Samþykkja vefkökur