Ávarp oddvita

Ágætu Garðbæingar,

Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ leggur fram metnaðarfulla stefnu fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí 2022. Framtíðarsýn okkar er að Garðabær verði áfram í hópi þeirra sveitarfélaga á Íslandi sem best þykja standa sig á öllum sviðum. Við höfum góða sögu að segja í bænum okkar. Reksturinn hefur verið traustur og ábyrgur og íbúar eru ánægðir með þjónustu bæjarfélagsins. Þá hefur uppbyggingu þjónustu og innviða verið sinnt af metnaði þrátt fyrir lágar álögur á íbúa.

Við leggjum hér fram framsækin fyrirheit sem samanstanda af 20 metnaðarfullum tillögum og 80 áherslum að auki. Stefnan var mótuð af fjölmörgum bæjarbúum sem sóttu stefnumótunarfundi í aðdraganda sveitarstjórnakosninga ásamt öflugum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins sem búa yfir mikilli reynslu og nýrri nálgun.

Við viljum varðveita það sem skiptir okkur máli um leið og við höldum áfram að byggja upp samfélagið okkar og þróa þjónustuna til móts við nýja tíma. Garðbæingar geta treyst því að sagan í bænum okkar verði áfram góð undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Við Sjálfstæðisfólk þökkum fyrir það traust sem okkar hefur verið sýnt um langt árabil við stjórn bæjarins. Það er von okkar að þið, kjósendur góðir, veitið okkur áframhaldandi umboð til þess að vinna að þeim framfaramálum sem sett eru fram í stefnuskránni fyrir komandi kjörtímabil.

Við höfum skýra framtíðarsýn – fyrir Garðabæ!

Almar Guðmundsson
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ
Samþykkja vefkökur